Náttúruparadís

Akureyri ber með stolti nafnbótina höfuðstaður Norðurlands enda er hún stærsti þéttbýliskjarninn utan höfuðborgarsvæðisins. Á þessu ári er gert ráð fyrir að fjöldi bæjarbúa fari yfir 20.000 og hefur bærinn meðal annars Háskóla og tvo framhaldsskóla. Mesta djásn Akureyrar er án efa skíðasvæðið í Hlíðarfjalli, en aðstaðan þar þykir ein sú besta á landinu.

Bærinn er einnig þekktur fyrir einmuna veðurblíðu yfir sumartímann. Þá er aldeilis gott að skella sér í golf á Jaðarsvelli.

Vinsælasta útivistarsvæði Akureyringa er í Kjarnaskógi en þar var byrjað að gróðursetja tré 1950 og þar hefur verið plantað 1.5 miljónum plantna. Trjágróðurinn er afar fjölbreyttur og veitir gott skjól en í skóginum er að finna þrjú leiksvæði ásamt fjölda leiktækja, blakvelli, trimmtæki og yfirbyggðar grillaðstöður sem henta bæði einstaklingum og hópum. Þar er jafnframt sérhönnuð einkar krefjandi fjallahjólabraut  sem tegir sig frá Strýtu í Hlíðarfjalli, 2,6 km niður að Glerá.

Austurbrú
AusturbrúAusturbrú

Ríkt menningarlíf

Akureyri skartar Hofi menningarhúsi og þar er aðsetur sinfóníuhljómsveitar Norðurlands. Í Hofi eru gjarnan fjöldi viðburða, myndlistasýningar, uppistand og tónleikar af öllum gerðum. Þá er einn elsti og vinsælasti tónleikastaður á landsbyggðinni, Græni hatturinn aðeins spottakorn frá Austurbrú.

Eitt mest afgerandi kennileiti bæjarins er Akureyrarkirkja stendur á holtinu ofan við Austurbrúarreitinn. Kirkjan hefur öflugt safnaðarstarf og starfrækir kór og barnakór ásamt listvinafélagi og heldur ýmis námskeið.

Listagilið við Kaupvangsstræti, eins og nafnið gefur til kynna, er einn af miðpunktum listalífsins á Akureyri. Við það er Listasafn Akureyrar en í gilinu blómstrar lista- og menningarstarf.

Þá eru á Akureyri fjöldi áhugaverðra safna og má nefna Nonnahús, Leikfangasafnið í Friðbjarnarhúsi, Flugsafn Íslands aðeins til að tæpa á örfáum.

Yfir vetrartímann er hápunkturinn í Hlíðarfjalli án efa Andrésar Andar leikarnir sem er fjölmennasta skíðamót landsins með hátt í 1.000 keppundum á aldrinum 4-15 ára. Þaðan eiga fjölmargir skíðamenn ljúfar minningar en leikarnir hafa farið fram síðan 1976.

Austurbrú